Fréttir

BIM í verkefnaskipulagi nútímans

22 January 2021

Fyrir stærri mannvirkjaverkefni er mikilvægt að forgangsraða uppsetningu á verkefnaskipulagi til að mæta áskorunum sem fyrir hendi eru.  

Hönnun mannvirkja og tilheyrandi hönnunarferli hafa á Íslandi sem erlendis farið í gegnum öra þróun síðastliðin áratug með tilkomu þrívíddarmódela og BIM ferla (Building Information Management).

Ástæða þess að BIM aðferðafræðin er áhugaverð er sparnaður í verkefninu þegar upp er staðið. Í BIM umhverfinu koma nefnilega hönnunarvandamálin í ljós snemma í hönnunarferlinu og hægt er að leysa málin áður en þau verða mjög kostnaðarsöm á lokastigi hönnunar eða verra – í framkvæmdinni sjálfri.

Þegar vel tekst til tryggja BIM ferlarnir samræmingu milli hönnuða á mismunandi fagsviðum mannvirkjagreinarinnar, þar með talið tæknigreina og arkitekta. En það er samt ekki sjálfgefið að samræming takist vel og höfum við enn þann dag í dag dæmi þess að mannvirkjaverkefni er vanköntum háð í þessu samhengi. En af hverju?

Á Íslandi er mikið af færum sérfræðingum á sínu sviði, hvort sem horft er til raflagnahönnunar, lagnahönnunar, lýsingarhönnunar, arkitektúrs eða annarra fagsviða, þá mætti lengi telja upp færa einstaklinga sem vinna í mannvirkjaverkefnum í dag. Ekki vantar sérþekkinguna í hönnun. Hins vegar er það engin áskrift á að samræming takist vel til í flóknum verkefnum. Það eru nefnilega fleiri þættir sem þurfa að smella til að góð BIM samræming eigi sér stað. „Culture eats strategy for breakfast“ er þekkt tilvitnun í Peter Drucker og í lauslegri og aðeins breyttri íslenskri þýðingu mætti segja að menningin étur breytingar í morgunmat. Kjarni málsins hér er að þegar flokkur fólks hefur unnið á ákveðin hátt í mörg ár eða áratugi þá getur verið erfitt að breyta þeirri menningu sem myndast hefur í kringum það verklag. En lykilatriði til þess að BIM samhæfing takist er að skapa í kringum það menningu sem einkennist af vilja til samvinnu og þar sem fólk á samskipti á uppbyggilegan og lausnamiðan hátt í þessu nýja umhverfi. Að þessu leyti þurfi allir í hönnunarteyminu að vera í sama bát, róandi í sömu átt.

BIM ferli samhæfa mismunandi fagsvið og til þess að það takist þarf ekki bara réttu verkfærin eins og t.d. þrívíddarmódel heldur líka réttu áherslurnar frá verkkaupa og verkefnastjórn verkefnisins. BIM samræming er miðpúnktur og sameiningarafl mannvirkjaverkefna. Í raun og veru er hægt að segja að BIM ferlið stýri gögnum til og frá mismunandi hönnuða á mismunandi tíma í verkefninu. BIM samræmingaraðili (stundum kallað BIM stjóri) leiðir hópinn í gegnum hönnunarferlið og þarf að þeim sökum að fá ákveðna þyngd í verkefnunum og sé tryggður sess í verkefninu í nánu samstarfi við verkefnastjórann. Því fylgir ábyrgð að stýra og sér í lagi þegar unnið er eftir verklagi sem er framandi fyrir suma sérfræðinga.

Þegar BIM ferlinu hefur verið tryggður sinn sess í verkefnaskipulagi verkefnisins er auðveldara að stýra hönnunarhóp sem samanstendur jafnvel mörgum mismunandi hönnunarfyrirtækjum sem hver um sig skara frammúr á sínu sviði. Það getur aukið fjölbreytni hönnuða í samsetningu stærra verkefna og nýtir markaðinn fyrir hönnun á annan hátt. Ekki þar með sagt að það fyrirkomulag sé ávallt ákjósanlegt en það bendir til þess að stærri mannvirkjaverkefni á Íslandi þurfi ekki alltaf að vera á höndum fárra. Það hlýtur að vera verkefnunum og verkkaupa til góða.  

Deila
Skráðu þig á póstlista
Thank you!
Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.