Hvað er um að vera?

Berskjöldun og hlátur góð verkfæri

Verkfræðistofan Lota er verkfræðistofa með sögu sem nær allt aftur til ársins 1960. Í dag er Lota framarlega í orkumálum og iðnaði með áherslu á rafmagn, lýsingu, hönnun, verkefnastjórn, eftirlit og fleira.

Árið 2020 var ráðist í gagngerar breytingar á innra skipulagi fyrirtækisins og áhersla lögð á að fá konur meira að borðinu í ákvarðanatöku. Í dag er framkvæmdastjórn skipuð þremur konum og einum karli. Þau Ásta Logadóttir verkfræðingur og sviðsstjóri, Erlen Björk Helgadóttir mannauðsstjóri, Ólöf Helgadóttir, verkfræðingur og sviðsstjóri, og Trausti Björgvinsson framkvæmdastjóri eru sammála um að einkar vel hafi tekist til við breytingar á framkvæmdastjórn og að kynblönduð stjórnun sé lykillinn að farsælum stjórnarháttum. Enn í dag virðist erfitt að fá konur til starfa á verkfræðistofum, svo við byrjum á að spyrja verkfræðingana í hópnum af hverju þær völdu verkfræðina.

Ólöf: „Mér fannst stærðfræði og eðlisfræði skemmtilegustu fögin í menntaskóla, við fengum kynningu frá rafmagns- og tölvuverkfræði inn í stærðfræðitíma og það virkaði áhugavert þannig að ég ákvað að prófa. Það sem heillaði var samt félagsskapurinn í náminu en ekki námið sjálft, til að byrja með. En síðan fékk ég að vinna í háspennu með skóla og þá komst ég að því hvað rafmagn er skemmtilegt.“

Ólöf Helgadóttir sviðsstjóri: „Konur eru enn í minnihluta í verkfræðistörfum þannig að mér finnst þarna vera tækifæri fyrir fullt af stelpum.“

Ásta: „Ég ætlaði að verða flugmaður, en það er yfirleitt minna að gera í fluginu á veturna þannig að ég sá að ég myndi þurfa eitthvað varastarf til að sinna á veturna og valdi verkfræði. Svo sá ég að verkfræðin hentaði mér bara prýðilega.“

Ásta Logadóttir sviðsstjóri: „Markþjálfun er verkfæri sem kom mér mjög á óvart.“

Ólöf: „Konur eru í miklum meirihluta í verkfræðinámi en ekki í starfi á verkfræðistofunum. Okkur gengur erfiðlega að ná stelpunum í vinnu eftir námið. Ég hugsa að þar ráði mestu gamlar mýtur um mikið álag og yfirvinnu á verkfræðistofum og að þær séu ekki fjölskylduvænir vinnustaðir, en staðan er allt önnur í dag. Verkfræðistofan okkar er frábær staður fyrir konur og við erum að vinna í því að fá fleiri konur til starfa til dæmis með því að bjóða þeim í starfsnám. Verkfræðistofur eru frábær starfsvettvangur fyrir konur ef þær bara opna á það.“

Ásta: „Í Lotu höfum við lagt til atlögu við þetta vandamál með því að setja konur í stjórnunarstöður og vonast til þess að þær séu fyrirmyndir fyrir ungar konur úr verkfræðingastétt sem eru á leið út á vinnumarkaðinn.“

Erlen: „Að undirlagi Trausta, núverandi framkvæmdastjóra, voru gerðar breytingar árið 2020. Þá var sviðum fækkað úr fjórum í tvö og þeim stjórna tvær konur, Ásta og Ólöf, en áður voru það karlar sem stýrðu sviðunum fjórum. Það var svo gaman að það voru allir mjög til í þessar breytingar, líka karlarnir og það studdu okkur allir í þessu.“

Erlen Björk Helgadóttir mannauðsstjóri: „Sem mannauðsstjóri þá sé ég mikla kosti í því að vera með fjölbreyttan hóp starfsmanna og ekki síður stjórnenda.“

Trausti: „Með þessu er ekkert endilega verið að segja að konur séu almennt og alltaf betri yfirmenn en ég tel að fjölbreytileikinn sé mjög mikilvægur. Verkfræðigeirinn hefur orð á sér fyrir að vera karllægur bransi og hann hefur alveg verið það en er það ekki lengur og til að breyta viðhorfum þarf að breyta til. Og það er það sem við viljum gera. Það er ekkert í eðli starfs verkfræðinga sem segir að því þurfi að vera sinnt af karlmönnum.“
 
Trausti Björgvinsson framkvæmdastjóri: „Það er ekkert í eðli starfs verkfræðinga sem segir að því þurfi að vera sinnt af karlmönnum.“
 

Fjölbreyttur hópur betri

Hver er kosturinn við að hafa jafnhlutfall kynja á vinnustað?

Trausti: „Mín reynsla er sú að ef þú hleypir konum að borðinu þá fer út af borðinu þetta neikvæða karllæga sem hefur verið ráðandi í áratugi á atvinnumarkaði. Karlar eru líklegri til að vera kurteisari og orða hlutina öðruvísi í blönduðu teymi sem breytir dýnamíkinni og það koma aðrir vinklar fram heldur en ef það væru bara karlar eða kannski bara konur, það er heldur ekki endilega betra. Það er betra að hafa þetta blandað þannig að allir eiginleikar og sjónarmið komi að borðinu. Við erum að vinna dálítið með berskjöldun og hlátur sem er betra að ná fram í blönduðum hóp.“

Erlen: „Sem mannauðsstjóri þá sé ég mikla kosti í því að vera með fjölbreyttan hóp starfsmanna og ekki síður stjórnenda. Við erum 13 konur á stofunni af 48 starfsmönnum og við höfum verið að reyna að hækka það hlutfall. Við reynum til dæmis að fá stelpur í sumarstörf sem vonandi skila sér svo til okkar þegar þær útskrifast.“

Ólöf: „Mér finnst stundum að ég hafi fengið tækifæri innan verkfræðigeirans af því að fólk hefur verið opið fyrir því að fá fleiri konur. Konur eru enn í minnihluta í verkfræðistörfum, sérstaklega í rafmagninu, og í náminu í háskólanum, þannig að mér finnst þarna vera tækifæri fyrir fullt af stelpum.“

Minni yfirvinna og færri tarnir

Af hverju haldið þið að konur séu ekki að skila sér úr náminu inn á stofurnar?

Ásta: „Ég hreinlega veit það ekki. Ég fór sjálf úr akademíunni inn á stofu af því mér fannst meira spennandi verkefni þar. En þetta var ekki eitthvað sem við stelpurnar vorum að ræða í skólanum, vorum ekki búnar að ákveða að við vildum ekki fara á stofur frekar en eitthvað annað.“

Ólöf: „Mér fannst praktíkin töluð niður þegar ég var í náminu og þess vegna var ég ekki að horfa á að fara á stofu. Ég held að þar hafi kennararnir verið að hugsa um akademíuna sem þeim fannst eina rétta leiðin, fara alla leið í námi og fara svo að kenna einhverjum öðrum. Sem endar kannski ekki vel ef allir mennta sig til að kenna öðrum en enginn fer síðan út í praktíkina.“

Trausti: „Ég held líka að þetta séu leifar frá fyrri tíð þegar var mikil yfirvinna á stofunum og langar og miklar tarnir. Núna er starfsumhverfið hjá okkur orðið annað og við til dæmis höfum lagt mikla áherslu á það á okkar vinnustað að vera ekki mikið í yfirvinnu og með því opnum við tækifæri fyrir starfsfólk, hvort sem það eru karlar eða konur, að vera með jafnvægi í vinnulífi og einkalífi.“

Ólöf: „Við erum með sveigjanlegan vinnutíma hjá Lotu og hvetjum líka fólk til að vinna heima ef að hentar og mér finnst það eiginlega vera frekar karlarnir hjá okkur en konurnar þeirra sem fara heim til veikra barna ef svo ber undir. Af því vinnustaðurinn býður upp á það. Við lærðum fullt af Covid um að vinna heima, og þó það hafi ekkert endilega verið skemmtilegur tími og flestir hafi verið mjög til í að snúa aftur í hefðbundna vinnuviðveru þá er mjög gott að geta boðið upp á það.“

Ásta: „Og svo kemur fólk stundum með börnin sín í vinnuna og gæludýrin líka og það er ekkert mál, mjög yndislegur staður til að vera á.“

Leyfi til að hlæja að mistökum

Eitt af þeim tækjum sem notuð eru á Lotu til að bæta líðan starfsfólks er berskjöldun eða „vulnerability“ sem felur í sér að fólk viðurkenni og ræði opinskátt um líðan sína og þau mistök sem óhjákvæmilega eiga sér stað einhverntíma. Hvernig virkar að vinna með berskjöldun á verkfræðistofu?

Trausti: „Ég lenti í veikindum fyrir tveimur árum og mín leið út úr þeim var mikil berskjöldun og að tengjast sjálfum mér og öðrum á annan hátt. Þetta hefur gagnast mér svo mikið að ég held að það hljóti að gagnast öðrum og vinnuumhverfinu. Berskjöldun gefur til dæmis leyfi til að hlæja að vitleysunni í sjálfum sér sem verður þá ekki eins alvarleg. Það er mín upplifun að fólk dafnar miklu betur ef það leyfir sér að vera eins og það er.“

Ásta: „Við erum að æfa okkur í að viðurkenna þegar við gerum mistök sjálf og gefa þannig gott fordæmi. Við gerum öll mistök og það sem við ætlum að gera er að læra af þeim og koma í veg fyrir að þau gerist aftur. Og það er meira að segja kominn ákveðinn vinnustaðahúmor í kringum þetta sem skapar stemningu og dregur úr pressu og streitu á vinnustaðnum.“

Erlen: „Við leggjum áherslu á hrein og bein samskipti, ef þarf að ræða við einhvern þá ræðum við beint og opið við viðkomandi frekar en að koma skilaboðum eftir krókaleiðum. Við erum bara eins og við erum og við leysum vandamál strax þegar þau koma upp.“

Trausti: „Við ræðum á starfsmannafundum hvað sé berskjöldun fyrir okkur og hvað þarf að vera til staðar í umhverfinu til að við leyfum okkur að fara þangað, þannig að allir starfsmenn séu í takt. Og viðbrögðin eru undantekningalaust jákvæð. Við vitum það verkfræðingarnir að já, við höfum gott af því að vera ekki alveg pottþétt alltaf. Hjá Lotu starfar fólk á öllum aldri sem tekur þátt í því og kann að meta haginn í því að koma fram eins og maður er .“

Berskjöldun skilar betri vinnuanda

Er þessi berskjöldunarvinna að skila sér í betri verkfræðistofu?

Erlen: „Já, ekki spurning!“

Ólöf: „Við höfum farið í gegnum alls konar rekstraráskoranir í fyrirtækinu, lentum í erfiðum dal fyrir nokkrum árum síðan og höfum verið að byggja upp starfsandann síðan. Nú erum við með góðan hóp, erum mikil liðsheild og finnum svo vel fyrir því í öllu sem við erum að gera. Við erum að ráða inn fólk þessa dagana og fyrsta pælingin er: Hvernig fellur viðkomandi inn í hópinn? Og það er að mínu mati af því að við höfum verið í þessari vinnu.“

Trausti: „Starfsfólkið hefur líka sagt, og mér þykir vænt um það, að það sé ekki nein höfðingjamenning í Lotu. Og það hefur þau áhrif að fólk þorir að berskjalda sig, því það veit að það verður ekki dæmt eða þurfi að passa inn í einhverja staðlaða ímynd til að fá framgang í starfi eða eitthvað svoleiðis og það held ég að hafi líka góð áhrif.“

Erlen: „Og þessi vinna skilar sér líka í betri vináttu milli starfsfólks. Við erum með ýmsa klúbba starfandi innan fyrirtækisins, gönguklúbb, sjósund og hlaupaklúbb, sem reyndar hefur ekki verið mjög virkur í vetur og það taka allir þátt, sama á hvaða fagsviði þeir eru. Við erum með mjög öflugt starfsmannafélag og svo erum við með áhugabruggara sem bjóða upp á heimabruggaðan bjór í starfsmannaherberginu okkar. Það þarf aldrei að kalla eftir neinu frumkvæði, það kemur bara af sjálfu sér.“

Markþjálfun í vinnunni

Trausti: „Varðandi berskjöldunina þá má líka koma fram að þrjú okkar í stjórnendateyminu eru að klára markþjálfanám og við nýtum okkur það í starfinu.“

Erlen: „Markþjálfanámið er svo magnað, það kennir manni meðal annars að hlusta upp á nýtt. Það á að vera svo einfalt, en að hlusta af alvöru athygli og hjálpa fólki að komast að sínum kjarna þarfnast þjálfunar.“

Trausti: „Starfsfólkið er mjög viljugt að koma til okkar í markþjálfun og deila alls konar hlutum sem fólk á mörgum öðrum vinnustöðum væri ekkert endilega til í að deila. Við erum svo þakklát fyrir að það sé svona mikið traust til staðar.“

Ásta: „Ég var með mjög mikla fordóma gegn markþjálfun og vissi ekki hvað það var, fannst að fólk ætti bara að geta fundið markmiðin sín sjálft. En svo var Trausti kominn í námið og bauð okkur líka og ég fann hvað þetta hjálpaði ótrúlega mikið. Svo núna þegar við erum að skipuleggja fundi notum við aðferðir markþjálfunar, til dæmis til að spegla sig og finna út hvað manni finnst vera rétt, og í staðinn fyrir að nenna varla á fundi þá hlakka ég til að skipuleggja fundinn þannig að fólk komi orkumikið út af fundinum og til í slaginn. Og það gerir vinnudaginn svo miklu skemmtilegri. Þannig að þetta er verkfæri sem kom mér á óvart og ég þurfti að éta ofan í mig fordómana.“

Starfsánægja er lykilatriði

Ólöf: „Það er líka magnað að hvetja hóp af verkfræðingum til að tala um veikleika sína og vinna með þá. Í staðinn fyrir að fela veikleikana og troðast áfram í því sem þau eru að gera þá erum við að vinna með þá og grípa fólk áður en það er til dæmis komið í kulnun.“

Erlen: „Og það þurfa heldur ekki endilega að vera veikleikar, bara ef fólk er fast í einhverju fari og sér ekki leiðina út, vantar samtal um leiðina áfram og hvert það vill stefna. Og ekki bara um vinnuna heldur líka persónulega hagi, það er mikið traust. Við gerum vinnustaðakönnun árlega og þar kemur fram að það er mikil starfsánægja hjá okkur. Fólki verður að líða vel í vinnunni, ef þér líður ekki vel í vinnunni þá þarf að byrja á að tala opinskátt um það og við sem vinnustaður að hafa hugrekki til að skoða það.“

 

Slæm dags­birtu­skil­yrði eru vax­andi ógn við heilsu­far fólks

Húsnæðismál eru mál málanna þessa dagana og gæði þeirra sjaldnar í fókus heldur en fjöldi íbúða og byggingarmagn. Í ýmis horn er að líta hvað varðar gæði en dagsljós er eitt af þeim.

Borgarskipulagið tók mikið tillit til dagsljósaskilyrða hér á árum áður. Því var tiltölulega lítil áhætta á að fasteignin hefði slæm dagsljósaskilyrði og við því ekki vön að þurfa að skoða dagsljósaskilyrðin sérstaklega. Með þéttingu byggðar byrjar áhættan á að kaupa íbúð með lélegum dagsljósaskilyrðum á svo norðlægum slóðum. Eftirfarandi eru punktar sem vert er að vera vakandi yfir ef fjármagna, byggja eða kaupa á eign í eða við þéttingarreit.


Niðurgrafni kjallarinn færir sig upp á efri hæðir

Flestir tengja við að niðurgrafnir kjallarar séu ekki paradís dagsljósaskilyrðanna. Með þéttri og hárri byggð munu lægri hæðir bygginga bera keim af þeim skilyrðum sem upplifast í niðurgröfnum kjöllurum. Fyrst og fremst takmarkast dagsljósið í íbúðinni vegna umhverfis sem hindrar aðkomu ljóssins í íbúðina.

Gluggastærðin segir alls ekki alla söguna. Þó að gluggi þeki útvegg frá gólfi til lofts er ekki sjálfgefið að dagsljósaskilyrðin séu góð í íbúðinni. Því hærri og nærri sem nærstandandi byggingar eru – því minna ljós mun koma á neðri hæðir og takmarka útsýni í leiðinni. Gluggategundin segir líka mikið um hve mikið ljós kemst inn um gluggann. Þegar notað er tónað gler er ekki einungis búið að takmarka ljósmagnið sem kemst inn í íbúðina heldur er líka búið að breyta litnum á dagsljósinu sem kemst inn. Það er því alltaf gott að prófa að opna glugga og bera saman útsýnið sem fæst í gegnum opið við útsýnið sem fæst í gegnum glerið – ef útsýnið virðst t.d. brúnt í gegnum glerið þá er það tónninn af dagsljósinu sem er að komast inn í íbúðina.

Veggþykkt skiptir máli þar sem litlir gluggar eru til staðar – í nýrri byggingum getur veggþykktin verið það mikil að hún takmarki verulega dagsljós sem kemst inn í íbúðina. Því stærri sem gluggarnir eru, því minna máli skiptir veggþykktin.

Svalir stela ljósinu frá þeim sem búa undir þeim. Þeim mun dýpri svalir sem eru til staðar yfir gluggum, því minna ljós mun komast inn um gluggann. Einnig eru veggir utandyra vandamál og þá sérstaklega fyrir horníbúðir, það að veggur sé til staðar við hlið gluggans mun takmarka dagsljósið inn í gluggann, því hærri og lengri sem veggurinn er, þeim mun minna dagsljós mun komast inn um gluggann.

Einnig þarf að skoða sérstaklega þegar byggt er út að lóðamörkum þar sem vegfarendur sem eiga leið hjá fá beina innsýn inn í íbúðirnar. Í slíkum tilfellum eru miklar líkur á að aðkoma dagsljóssins takmarkist enn frekar þegar dregið er fyrir eða gerðar aðrar sambærilegar ráðstafanir svo vegfarendur fái ekki beina innsýn inn í íbúðina. Slíkar aðgerðir takmarka einnig útsýni í leiðinni.

Mjög mikilvægt er að meta hvort hægt sé að fá óhindrað dagsljós í íbúðina. Það er gert með því að athuga hvort sjáist til himins og því dýpra inn í íbúðinni sem hægt er að standa og horfa á himininn því betri skilyrði. Það fer svo eftir áttum og umhverfi glugga hvort rýmið eigi kost á beinu sólarljósi eða ekki.

Dýpt rýma í íbúðum skiptir miklu máli fyrir dagsljósaskilyrðin og sérstaklega þar sem gluggar eru einungis staðsettir á einum útvegg. Ef gluggar eru staðsettir á einum útvegg og rýmin eru djúp þá er mikil hætta á að rýmið virðist alltaf dimmt. Einnig er hætta á að upplifa glýju (ofbirtu í augun) í slíkum rýmum ef staðið er aftast í rýminu og horft mót glugga. Ef gluggar eru í fleiri útveggjum og vísa í fleiri en eina átt hjálpar það til því rýmið upplifast ekki eins dimmt, en þumalputtaregla segir að dagsljósið nýtist ca 4 m inn í rými frá glugga.


Áttirnar brenglast í mjög þéttri byggð

Ekki er hægt að reikna með kvöldsól á vestursvalir og morgunsól á austursvalir því í þéttu og háu umhverfi er alls ekki öruggt að sólarljós komist á svalir á neðri hæðum. Eins þarf að greina umhverfið og efniseiginleika þess. Sem dæmi má nefna, getur endurkast ljóss valdið breytingum á umhverfi sínu. Stærri bygging í glerhjúp getur endurkastað ljósi kröftugt ef glerið er þess eðlis. Því getur norðurgluggi verið útsettur fyrir endurköstuðu sólarljósi frá nærliggjandi glerbyggingu við ákveðnar veðuraðstæður.

Kæru fjármagnarar:

Viljið þið vera svo góð að setja kröfu á gæði híbýla og þar með talið dagsljósaskilyrðin fyrir eignina sem þið eruð að meta hvort þið viljið fjármagna. Þar með stuðlið þið að lýðheilsu, bætið borgarumhverfið okkar og tryggið gæðavöru á markaði fyrir meðvitaða kaupendur.

Kæru uppbyggingaraðilar:

Viljið þið vera svo góð að hugsa út fyrir kassann og byggja gæða fasteignir þannig að söluvaran sem þið bjóðið upp á sé ekki bara söluvænleg því sár vöntun er á markaðnum. Heldur vitið þið og getið verið stolt af því að standa eftir með gæða söluvöru í höndunum.

Kæru íbúðarkaupendur:

Dagsljós í íbúðinni hefur ekki einungis áhrif á upplifun ykkar í íbúðinni, heldur hefur dagsljósið í híbýli ykkar einnig áhrif á heilsu ykkar. Svo ekki sé talað um rafmagnssparnaðinn sem hlýst af því að sleppa að nota raflýsingu helming ársins. Verum meðvituð. Ekki kaupa köttinn í sekknum!


Ásta Logadóttir, verkfræðingur PhD, og Sölvi Kristjánsson, lýsingarhönnuður hjá LOTU.

Tísku slökkvitæki?

Nú líður að jólum og þá er sérstaklega mikilvægt að huga að eldvörnum heimilisins eins og að skipta um rafhlöðu í reykskynjaranum, kaupa eldvarnateppi ef það er ekki til staðar í eldhúsinu og athuga hvort komið sé að yfirferð og skoðun slökkvitækis.

Talandi um slökkvitæki, erum við að missa sjónar á öryggi heimilisfólks á kostnað fallegrar hönnunar? Það er gaman að eiga fallegt heimili og margir hafa ánægju af því að eiga fallegar hönnunarvörur til að prýða það. En hvað skiptir mestu máli í okkar daglega lífi, eru það veraldlegir hlutir eða fólkið okkar? 

Ég veit að allir segja að auðvitað gangi fólkið okkar alltaf fyrir og enginn vill viljandi leggja sína nánustu í hættu en það er einmitt inntak þessarar greinar.  Vita fagurkerar, áhrifavaldar, vöruhönnuðir, lífstílshönnuðir eða aðrir þeir sem hanna, selja eða mæla með „hönnunarvörum“ sem í tísku eru í það og það skiptið, þegar þeir eru að stofna lífi fólks í hættu?

Lota hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar

Lota er eitt þeirra 38 fyrirtækja sem hlutu viðurkenningu Jafnréttisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis FKA, árið 2021. Auk fyrirtækjanna 38 hlutu 7 sveitarfélög og 8 opinberir aðilar viðurkenninguna.

Viðurkenningin var veitt á ráðstefnunni Jafnrétti er ákvörðun sem streymt var í beinni útsendingu á vefsíðu RÚV. Þar kynnti Eliza Reid viðurkenningarhafa Jafnvægisvogarinnar, en það eru þeir þátttakendur sem hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar. Markmið Jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi var haft til hliðsjónar við matið.

Við erum ótrúlega stolt af þessari flottu viðurkenningu.

Image
Höfum þetta einfalt

Hafa samband

Netfang: lota@lota.is
Sími: (+354) 560 5400
Opið mán. - fös. 08:30-16:00
Guðríðarstígur 2-4
113 Reykjavík
Iceland

Hvað er um að vera?