Fréttir

Af hverju varð rafmagnslaust í Texas?

February 24, 2021
Blog header image

Íslendingar hafa byggt upp raforkukerfi sem hefur sýnt sig að vera mjög traust og áreiðanlegt, sérstaklega í ljósi þess hversu strjálbýlt er í landinu og miðað við það veðurfar sem við búum við.

Straumleysi í vondum veðrum var reyndar mjög algengt sérstaklega til sveita allt fram yfir 1990, en hefur breyst mikið í kjölfar styrkingar raforkukerfisins, sérstaklega dreifikerfisins.

Í dag er hæsti raforkutoppurinn á Íslandi um 2,3 GW, (1 GW er 1000 MW sem samsvarar um þremur Búrfellsvirkjunum) sem telst lítið á heimsvísu en mjög mikið miðað við mannfjölda í landinu, þar höfum við vinninginn eins og svo oft.  Hæsti toppur þýðir í raun mesta augnabliksnotkun á rafmagni í landinu öllu.  Oftast gerist þetta í desember en einstaka sinnum fer raforkunotkunin upp í öðrum mánuðum, helst í tengslum við loðnubræðslu.  

Það búa um 29 milljónir manns í Texas og afltoppurinn þar er um og yfir 70 GW og kemur yfirleitt á miðju sumri þegar allir eru að keyra loftkælingarnar sínar í sumarhitanum.  Mesta notkun hérlendis er því um 3% af aflþörfinni í Texas og eru þá öll álver og önnur stóriðja talin með.  Skyndileg aflþörf í fylkinu fór svo upp í 74 GW, mánudagsmorguninn 15 . febrúar síðastliðinn, á tíma sem að jafnaði er ekki svo aflfrekur.

Það sem gerðist núna í febrúar 2021 var að miklir kuldar kölluðu á meiri raforkunotkun á tíma sem rekstraraðilar kerfisins voru ekki viðbúnir.  Stór hluti rafmagns í Texas er framleiddur með kolum og gasi, eitthvað með kjarnorku og auk þess er vindorka að byggjast mjög hratt upp á svæðinu.  Verstu spár fyrir febrúar, sem mjög litlar líkur voru taldar á, gerðu ráð fyrir afltoppi upp á 67 GW, sem er um 10% undir þeim 74 GW, sem raun varð á.   Enginn bjóst við slíkum hamförum þó vissulega væru einhverjar stjarnfræðilega litlar líkur á því.

Eitthvað var um að viðhaldi hafi verið frestað eða dregið úr því vegna Covid19 hamfara ársins 2020.  Margir rafmagnsframleiðendur sem framleiða með gasi og kolum voru í viðhalds-stoppi vikuna fyrir kuldakastið.  Vindmyllur uppsettar í fylkinu eru 28 GW en raun geta þeirra er að jafnaði innan við 40% og hefur sýnt sig á háannatímum að vera einungis um 7 GW eða um 25%, m.a. og einna helst vegna veðurskilyrða.  Vindorkuframleiðsla fór hinsvegar allt niður í 0,6 GW vikuna 15.-19. febrúar síðastliðinn, framleiðsla í kola og gasorkuverum fór niður í 32 GW, að hluta vegna viðhalds og skerða varð rafmagn til 25 % af notendum til að halda kerfinu gangfæru yfir erfiðasta hjallann.

Rekstraaðili flutningskerfisins ERCOT (sem er Landsnet þeirra Texasbúa) hafði sent út formlega viðvörun – svokallaða „Operating Condition Notice” (OCN)  -  vikuna áður og beðið framleiðendur um að vera viðbúna og taka orkuver sín ekki úr rekstri meðan þetta veður vofði yfir.  Engin viðurlög eru við því að hunsa slíkar OCN tilkynningar fyrirtækisins og því virtust framleiðendur ekki bregðast við þeim.  Þetta er sérstaklega bagalegt þar sem Texas er ekki tengt raforkukerfum nágranafylkja og gat því ekki leitað á náðir þeirra með raforkukaup.

Kuldakastið var auk þess til þess að mikil eftirspurn varð eftir gasi til húshitunar og upp kom bæði skortur og gríðarleg verðhækkun sem sömuleiðis kom í veg fyrir að raforkuframleiðendur gætu eða vildu auka framleiðslu sína.  Allt þetta leiddi svo til þess að raforkukerfið og fleiri innviðir lögðust á hliðina þessa viku sem kuldakastið gekk yfir Texasfylki.

Því miður er það svo að hinn frjálsi markaður leiðir stundum til þess að gjaldskrár og verðlagning verða ansi flókin.  Við þekkjum það vel hér á landi að flóknar gjaldskrár og afsláttakjör t.d. byggingarvöruverslana, símafyrirtækja og tryggingarfélaga geta orðið til þess að erfitt er að átta sig á því hvað verið er að fá og hversu mikið er verið að borga fyrir í raun. Einhver brögð eru af því að almennir raforkuneytendur í Texas fengu reikninga allt upp í 900.000 kr í kjölfar mikillar umframnotkunar miðað við samninga í liðinni viku, aðrir sleppa með skrekkinn þar sem þeir hafa greitt að jafnaði hærra gjald gegn tryggri afhendingu rafmagnsins. Slíkar fréttir bera þess greinileg merki að viðkomandi viðskiptavinir hafa ekki skilið eða verið illa upplýstir um skilmála raforkukaupanna.

Ekki eru öll kurl komin til grafar í þessu máli og margt á sjálfsagt eftir að rannsaka og rita um á næstu misserum.  Við sem hér sitjum í okkar þægilega raforkukerfi undrumst á þessum atburðum og fleirum álíka í BNA svo sem í Kaliforníu í upphafi aldarinnar.  Það er einfalt og hvarflar vissulega að manni að skella skuldinni á hið mjög svo frjálsa umhverfi sem raforkumarkaðurinn býr við í BNA   Það er líklega of mikil einföldun samt sem áður og það ætti að vera hægt að stilla upp kerfi sem býr við mikið frjálsræði án þess að vænta megi uppákoma sem þessarar.  Það er alveg ljóst að flutnings -fyrirtækið verður að hafa einhver tæki til að tryggja að framleiðendur séu tiltækir ef svona ástand er fyrirsjáanlegt skv. fyrirliggjandi spám.  Framleiðendur verða að skuldabinda sig til að leggja til hliðar sínar sérþarfir í tímabundnu ástandi sem þessu – það er öllum á markaðnum til hagsbóta til lengri tíma litið þó það sé örugglega íþyngjandi fyrir rekstur fyrirtækjanna tímabundið.  Annað sem blasir við þegar svona mál er skoðað ofan í kjölinn, en það eru þau forréttindi sem við Íslendingar búum við þegar kemur að raforkunotkun.  Öll sú raforka sem við notum er endurnýjanleg og eins umhverfisvæn og hægt er að framleiða í nútímasamfélagi, sem alls ekki raunin í ríki eins og Texas.  Við erum þess vegna í engu háð heimsmarkaðsverði á gasi til dæmis eða kolum hvað raforkuverð varðar, en það verð getur sveiflast mjög mikið þegar svona uppákomur eiga sér stað.

Þetta er áhugavert að íhuga í ljósi umræðunnar hér á landi þar sem framleiðendur hafa verið að fetta fingur út í áætlanir og uppbyggingaráform Landsnets, sem ber sambærilega ábyrgð og ERCOT hefur í Texas.

Nýlega kom út skýrsla á vegum Félags ráðgjafarverkfræðinga og Samtaka iðnaðarins, um innviði á Íslandi þar sem fram kemur að raforkuflutningskerfið á Íslandi er komið til ára sinna, sérstaklega byggðalínurnar og tengivirki þeim tengd.  Nýlegir atburðir hér á landi eins og við sáum t.d. veturinn 2019/2020, sýndu fram á ákveðna veikleika í kerfinu sem meðal annars má rekja til aldurs þess.  Mikilvægt er að við sofnum ekki á verðinum og höldum vöku okkar hvað þessi mál varðar, þó jafnframt þurfi að huga að hagrænum sjónarmiðum og forðast offjárfestingar eins og sumir raforkuframleiðendur eru að benda á.

Feb. 2021/Eymundur Sigurðsson, verkfræðingur hjá Lotu

Byggt á fréttum í íslenskum og erlendum fjölmiðlum og samantekt Wood Mackenzie.

Deila
Skráðu þig á póstlista
Thank you!
Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.