Fréttir

Slæm dags­birtu­skil­yrði eru vax­andi ógn við heilsu­far fólks

September 19, 2022

Húsnæðismál eru mál málanna þessa dagana og gæði þeirra sjaldnar í fókus heldur en fjöldi íbúða og byggingarmagn. Í ýmis horn er að líta hvað varðar gæði en dagsljós er eitt af þeim.

Borgarskipulagið tók mikið tillit til dagsljósaskilyrða hér á árum áður. Því var tiltölulega lítil áhætta á að fasteignin hefði slæm dagsljósaskilyrði og við því ekki vön að þurfa að skoða dagsljósaskilyrðin sérstaklega. Með þéttingu byggðar byrjar áhættan á að kaupa íbúð með lélegum dagsljósaskilyrðum á svo norðlægum slóðum. Eftirfarandi eru punktar sem vert er að vera vakandi yfir ef fjármagna, byggja eða kaupa á eign í eða við þéttingarreit.


Niðurgrafni kjallarinn færir sig upp á efri hæðir

Flestir tengja við að niðurgrafnir kjallarar séu ekki paradís dagsljósaskilyrðanna. Með þéttri og hárri byggð munu lægri hæðir bygginga bera keim af þeim skilyrðum sem upplifast í niðurgröfnum kjöllurum. Fyrst og fremst takmarkast dagsljósið í íbúðinni vegna umhverfis sem hindrar aðkomu ljóssins í íbúðina.

Gluggastærðin segir alls ekki alla söguna. Þó að gluggi þeki útvegg frá gólfi til lofts er ekki sjálfgefið að dagsljósaskilyrðin séu góð í íbúðinni. Því hærri og nærri sem nærstandandi byggingar eru – því minna ljós mun koma á neðri hæðir og takmarka útsýni í leiðinni. Gluggategundin segir líka mikið um hve mikið ljós kemst inn um gluggann. Þegar notað er tónað gler er ekki einungis búið að takmarka ljósmagnið sem kemst inn í íbúðina heldur er líka búið að breyta litnum á dagsljósinu sem kemst inn. Það er því alltaf gott að prófa að opna glugga og bera saman útsýnið sem fæst í gegnum opið við útsýnið sem fæst í gegnum glerið – ef útsýnið virðst t.d. brúnt í gegnum glerið þá er það tónninn af dagsljósinu sem er að komast inn í íbúðina.

Veggþykkt skiptir máli þar sem litlir gluggar eru til staðar – í nýrri byggingum getur veggþykktin verið það mikil að hún takmarki verulega dagsljós sem kemst inn í íbúðina. Því stærri sem gluggarnir eru, því minna máli skiptir veggþykktin.

Svalir stela ljósinu frá þeim sem búa undir þeim. Þeim mun dýpri svalir sem eru til staðar yfir gluggum, því minna ljós mun komast inn um gluggann. Einnig eru veggir utandyra vandamál og þá sérstaklega fyrir horníbúðir, það að veggur sé til staðar við hlið gluggans mun takmarka dagsljósið inn í gluggann, því hærri og lengri sem veggurinn er, þeim mun minna dagsljós mun komast inn um gluggann.

Einnig þarf að skoða sérstaklega þegar byggt er út að lóðamörkum þar sem vegfarendur sem eiga leið hjá fá beina innsýn inn í íbúðirnar. Í slíkum tilfellum eru miklar líkur á að aðkoma dagsljóssins takmarkist enn frekar þegar dregið er fyrir eða gerðar aðrar sambærilegar ráðstafanir svo vegfarendur fái ekki beina innsýn inn í íbúðina. Slíkar aðgerðir takmarka einnig útsýni í leiðinni.

Mjög mikilvægt er að meta hvort hægt sé að fá óhindrað dagsljós í íbúðina. Það er gert með því að athuga hvort sjáist til himins og því dýpra inn í íbúðinni sem hægt er að standa og horfa á himininn því betri skilyrði. Það fer svo eftir áttum og umhverfi glugga hvort rýmið eigi kost á beinu sólarljósi eða ekki.

Dýpt rýma í íbúðum skiptir miklu máli fyrir dagsljósaskilyrðin og sérstaklega þar sem gluggar eru einungis staðsettir á einum útvegg. Ef gluggar eru staðsettir á einum útvegg og rýmin eru djúp þá er mikil hætta á að rýmið virðist alltaf dimmt. Einnig er hætta á að upplifa glýju (ofbirtu í augun) í slíkum rýmum ef staðið er aftast í rýminu og horft mót glugga. Ef gluggar eru í fleiri útveggjum og vísa í fleiri en eina átt hjálpar það til því rýmið upplifast ekki eins dimmt, en þumalputtaregla segir að dagsljósið nýtist ca 4 m inn í rými frá glugga.


Áttirnar brenglast í mjög þéttri byggð

Ekki er hægt að reikna með kvöldsól á vestursvalir og morgunsól á austursvalir því í þéttu og háu umhverfi er alls ekki öruggt að sólarljós komist á svalir á neðri hæðum. Eins þarf að greina umhverfið og efniseiginleika þess. Sem dæmi má nefna, getur endurkast ljóss valdið breytingum á umhverfi sínu. Stærri bygging í glerhjúp getur endurkastað ljósi kröftugt ef glerið er þess eðlis. Því getur norðurgluggi verið útsettur fyrir endurköstuðu sólarljósi frá nærliggjandi glerbyggingu við ákveðnar veðuraðstæður.

Kæru fjármagnarar:

Viljið þið vera svo góð að setja kröfu á gæði híbýla og þar með talið dagsljósaskilyrðin fyrir eignina sem þið eruð að meta hvort þið viljið fjármagna. Þar með stuðlið þið að lýðheilsu, bætið borgarumhverfið okkar og tryggið gæðavöru á markaði fyrir meðvitaða kaupendur.

Kæru uppbyggingaraðilar:

Viljið þið vera svo góð að hugsa út fyrir kassann og byggja gæða fasteignir þannig að söluvaran sem þið bjóðið upp á sé ekki bara söluvænleg því sár vöntun er á markaðnum. Heldur vitið þið og getið verið stolt af því að standa eftir með gæða söluvöru í höndunum.

Kæru íbúðarkaupendur:

Dagsljós í íbúðinni hefur ekki einungis áhrif á upplifun ykkar í íbúðinni, heldur hefur dagsljósið í híbýli ykkar einnig áhrif á heilsu ykkar. Svo ekki sé talað um rafmagnssparnaðinn sem hlýst af því að sleppa að nota raflýsingu helming ársins. Verum meðvituð. Ekki kaupa köttinn í sekknum!


Ásta Logadóttir, verkfræðingur PhD, og Sölvi Kristjánsson, lýsingarhönnuður hjá LOTU.

Deila
Skráðu þig á póstlista
Thank you!
Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.