Greinar

Brunahönnun meðferðarkjarna NLSH

May 20, 2021

Nýr meðferðarkjarni Landsspítalans rís nú við Hringbraut í Reykjavík. Byggingin er u.þ.b. 69.000 m2 og er sex hæðir auk tveggja kjallara. Byggingin mun hýsa m.a. bráðamóttöku, myndgreiningadeildir, fjölda skurðstofa og legudeildir þar sem allar sjúkrastofur eru eins manns rými með sér salerni og sturtu. Einnig eru fjöldi stoðrýma, apótek, sótthreinsunarstöðvar auk heillar hæðar fyrir tæknikerfi.


Mynd 1: Þrívíddarteikning af fyrirhugaðri byggingu Meðferðakjarna Landsspítalans (MFK)

Brunavarnir byggingarinnar eru ekki eingöngu byggðar á byggingartæknilegum lausnum. Hér er um að ræða flókið samspil á milli byggingartæknilegra lausna, ástands og getu sjúklinga, áhættumats vegna eldhættu, viðbragðsáætlana LSH, þjálfunar starfsfólks og fleiri atriða sem öll saman stuðla að því að ná settu marki um viðeigandi öryggisviðmið í byggingunni. Um er að ræða annars vegar opinberar kröfur um öryggi almennings, starfsmanna og slökkviliðs eins og þær birtast í byggingarreglugerð og tengdum skjölum og hins vegar lágmarkskröfur verkkaupa um eignavernd og rekstraröryggi. Með allt ofangreint í huga var leitast við að hanna húsið með óbeinar eldvarnir (e. passive fire protection) í huga frekar en virkar eldvarnir (e. active fire protection).
Lögð var áhersla á það við hönnun hússins að huga að sveigjanleika m.t.t. breytinga innanhúss í framtíðinni. Byggingin samanstendur af fimm stöngum sem tengdar eru saman með tveimur aðalgöngum sem liggja langsum eftir byggingunni. Norðurgangurinn er hugsaður með almenna umferð í huga en suðurgangurinn er skilgreindur að mestu sem hluti af klínisku svæði.

Notkunarflokkar
Byggingin er að mestu leyti í notkunarflokki 5 skv. byggingarreglugerð en einnig að hluta til í notkunarflokki 2, t.d. fundarsalir, matartorg og smáverslanir og í notkunarflokki 1, t.d. tæknirými og stærri geymslur.

Viðkvæm svæði
Svæði innan byggingarinnar eru mis-viðkvæm og þarf að taka tilliti til þess við brunahönnun. Dæmi um svæði þar sem starfsemin má ekki stöðvast eru skurðstofur, gjörgæsla, bráðamóttaka og smitsjúkdómadeildir. Dæmi um svæði þar sem erfitt er að stöðva starfssemi eða lengri tíma þarf til að rýma frá eru hjarta- og lungnadeild, myndgreining og vöknun- og undirbúningur. Svæði þar sem starfsemin má stöðvast tímabundið eru t.d. legudeildir og apótek.

Sérstök tæki
Í byggingu sem þessari eru ýmis kerfi og tæki sem taka þarf sérstakt tillit til eða í það minnsta hafa í huga við brunahönnun. Þetta eru t.d. AGV-vagnar sem eru sjálfvirkir vöruflutningavagnar. Þeir eru að mestu á ferðinni á nóttunni en gæta þarf að því að þeir hindri ekki lokun brunahólfandi byggingarhluta eða séu fyrir í rýmingarástandi. Í byggingunni eru einnig rörpóstkerfi og lín-og sorpkerfi sem eru hvort um sig vefur röra eða stokka sem liggja um allt húsið þvert á alla brunahólfun.
Svo eru í byggingunni ýmist stór og mikilvæg tæki eins og t.d. hringhraðall og jáeindaskanni, MRI- myndgreiningatæki, skurðstofuþjarkar og margt fleira. Eftir gagnaöflun kom í ljós að flest þessara tæki krefjast engra sérstakra ráðstafana hvað brunavarnir varðar.

Brunahólfun
Byggingunni verður skipt í allmörg meginbrunahólf til að takmarka útbreiðslu brunatjóns. Á fimmtu og sjöttu hæð er hver legudeild sér meginbrunahólf. Aðrar hæðir, með fáeinum undantekningum, eru sjálfstæð meginbrunahólf sem skiptast upp í mörg brunahólf. Tekur hólfunin mið af eðlilegum mörkum starfsemi og tæknikerfa. Hugmyndafræðin á bakvið skiptingu rýma upp í brunahólf snýst um að skilgreina hvort gert sé ráð fyrir að sjúklingar sofi í rýminu með stöku viðveru starfsfólks eða hvort sjúklingar staldri styttra við í rýminu undir nokkuð stöðugu eftirliti starfsfólks. Þannig eru sjúkrastofur á legudeildum hver og ein sér brunahólf en t.d. á bráðamóttöku, vöknun og undirbúningi og myndgreiningardeild eru fleiri rými saman í brunahólfi. Á gjörgæslu er blanda af báðum útfærslum.
Allir brunahólfandi veggir eru EI 60 og brunahólfandi hurðum er skipt upp í nokkra fyrirfram skilgreinda flokka til einföldunar. T.d. eru allar hurðir inn í tæknirými með 60 mínútna brunakröfu og allar hurðir sem opnast inn á norður- og suðurganga hafa kröfu um sjálflokandi búnað.

Rýming
Hvorki er raunhæft né gerlegt að rýma bygginguna í heild, bæði með tilliti til þeirrar viðkvæmu starfsemi sem er í húsinu og vegna þess fjölda fólks sem þarf aðstoð við rýmingu. Við ákvörðun á brunahólfum er tekið tillit til rökréttra rýmingaleiða innan hverrar hæðar. Þetta er mikilvægt með tilliti til öryggis starfsfólks og sjúklinga en einnig þarf að taka tillit til rekstrarlegs fyrirkomulags á hverju svæði.
Almennt er gert er ráð fyrir láréttri rýmingu. Það byggir á því að húsnæðinu er skipt niður í röð brunahólfa með skilgreinda brunamótstöðu. Sjúklingar eru síðan fluttir milli hólfa eftir ákveðnu rýmingarferli, frá hættusvæðum á öruggari svæði innan hæðar og loks á aðrar hæðir eða út úr húsi ef þörf krefur. Reiknað er með að slökkviliðalyftur séu notaðar til að flytja fólk milli hæða á þessu síðara stigi rýmingar ef með þarf og þá í samvinnu við slökkvilið. Rýmingarferlið krefst fyrirfram ákveðinna æfðra áætlana sem eru skipulögð með þátttöku bruna-/öryggishönnuðar, starfsfólks og slökkviliðs. Skv. erlendum rannsóknum getur munað allt að 40% á rýmingartíma eftir aðeins eina æfingu starfsfólks.

Slökkvibúnaður og viðvörunarkerfi
Byggingin verður varin með misturkerfi og einnig með gasslökkvikerfum í ákveðnum tæknirýmum. Fullgilt brunaviðvörunarkerfi er í öllu húsinu með töluðum skilaboðum og ljósmerkjum þar sem það á við. Lögð er áhersla á að sjúklingar verði fyrir sem minnstri truflun við boð frá brunaviðvörunarkerfi nema að brýn nauðsyn sé til. Brunaboð skulu berast fyrst til starfsfólks á viðkomandi svæði og til stjórnstöðvar. Framhald boðunar byggir svo á fyrirfram ákveðinni áætlun um viðbrögð á hverju svæði (e. cause and effect matrix).
Engar brunaslöngur verða í byggingunni. Slökkvitæki eru ætluð til að ráðast til atlögu við eld á byrjunarstigi í von um að slökkva hann á stuttum tíma og verða þau valin og staðsett skv. viðeigandi reglum og stöðlum. Sá sem hefur slökkvistarf þarf þá ekki sjálfur að taka ákvörðun um hvenær nóg er komið og tími til að forða sér út. Það gerist ósjálfrátt þegar tækið er tómt (t.d. tekur innan við 1 mínútu að tæma eitt 9 L vatnsslökkvitæki). Notkun brunaslöngu til að slökkva eld leyfir aftur á móti lengri tíma sem óvanur og óvarinn aðili getur notað til að berjast við eldinn. Slangan veitir aðgang að ótakmörkuðu vatnsmagni og hvort sem það dugar til að slökkva eldinn eða ekki, gæti viðkomandi freistast til að vera of lengi inni í brennandi húsi og valdið sjálfum sér og öðrum miklum skaða eða jafnvel dauða. Í rýmingaráætlunum er almennt gert ráð fyrir því að starfsfólk noti slökkvitæki og etv. eldvarnateppi en ekki brunaslöngur til slökkvistarfa. Þjálfun starfsfólks gengur út á það að koma í veg fyrir að eldur kvikni, þekkja eldhættur og síðan að þjálfa það í að slökkva eld á fyrstu stigum, en jafnframt að stjórna rýmingu fólks. Þess má geta að í rýmingaráætlunum og í þjálfun starfsfólks sjúkrahúsa hér á landi, t.d. bæði á Landsspítalanum og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, er ekki minnst á notkun brunaslanga, heldur einungis sagt að nota skuli slökkvitæki ef svo ber undir og síðan að rýma og aðstoða við rýmingu. Er það því mat brunahönnuða nýs meðferðarkjarna NLSH, að brunaslöngur séu ekki nauðsynlegar til þess að tryggja brunavarnir byggingarinnar.
Fjórar stigleiðslur eru í byggingunni og ná þær frá K2 og upp á 6.hæð. Inndæling er við báða enda hússins og eru útdælingarstútar við slökkviliðalyftur á hverri hæð.

Loftræsikerfi
Í upphafi hönnunar hússins lagði verkkaupi mikla áherslu á að notkun bruna- og reykloka í loftræsikerfum yrði í algeru lágmarki. Þessum lokum fylgja reglulegar prófanir og viðhald og ætla má að fjöldi slíkra loka skipti hundruðum í byggingu sem þessari. Í vettvangsferð í Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi kynntust hönnuðir svokölluðum einstefnulokum sem hafa verið notaðir í Svíþjóð um áraraðir. Þessir lokar eru settir á innstreymisstokka í hverju rými og virka þeir þannig að loft kemst aðeins um þá í eina átt (inn) en ekki til baka (út). Loftræsikerfið er svo látið ganga áfram við bruna þannig að útsogið sogar reyk út. Enginn mekanískur búnaður er í einstefnulokunum svo viðhald þeirra er í algeru lágmarki.
Til þess að sannreyna hvort reykur bærist um loftræsikerfið á milli brunahólfa var sett upp módel í reykhermiforritinu Pyrosim (FDS forrit) og niðurstöður bornar undir sænska sérfræðinga sem þekkja þessa aðferð vel. Niðurstöðurnar komu vel út og hafa loftræsihönnuðir hannað kerfin í húsinu með þessu tilliti (sjá: Branskydd ventilation og Fläkt i drift gefið út af Svensk Ventilasjon).


Mynd 2: skematísk mynd um virkni einstefnuloka

Jarðskjálftahönnun og brunavarnir
Gerð er krafa um að byggingin geti verið starfhæf stuttu eftir stóran jarðskjálfta. Burðarþolshönnuðir hafa lagt mikla vinnu í þá hönnun og eru þar einstaka þættir sem hafa áhrif á brunavarnir. Þensluskil ganga upp allt húsið og þarf að gæta þess að þannig sé frá þeim gengið að brunahólfun haldi þrátt fyrir hreyfanleika húshluta á þeim svæðum. Einnig hefur verið skoðað hvernig léttari byggingarhlutar (byggingarhlutar án burðar) standast jarðskjálfta og hafa brunahönnuðir skoðað ítarlega uppbyggingu léttra gifsveggja. Gera má ráð fyrir að lausamunir, loftaplötur og hlutar af tæknibúnaði geti fallið niður við jarðskjálfta og teppt helstu rýmingarleiðir. Við þessar aðstæður getur skipt sköpum að brunahólfun haldi þannig að sjúklingar séu öruggir t.d. inni á sjúkrastofum í einhvern tíma. Ítalskir og svissneskir verkfræðingar hafa gefið út leiðbeiningar um uppbyggingu léttra veggja (gifsveggja) sem lágmarkar hættu á sprungumyndun t.d. við loft og á hornum og mælum við með að þær verði hafðar að leiðarljósi í MFK (sjá: AWCINZ – Code of pracitice – Good practice guidelines for non-structural internal walls and partitions).

Reyklosun
Reyklosun efri hæða er um glugga og hurðir. Inngarðar sem ganga upp allt húsið nýtast t.d. til reyklosunar, þannig er alls staðar gott aðgengi að gluggum.
Reyklosun frá kjöllurum var hönnuð í samvinnu við útkallsdeild SHS. Ákveðið var að settir yrðu upp reyklosunarbrunnar við útveggi og opnanir inn í inngarða þannig að öll stærri rými hafa aðgang að a.m.k. tveimur reyklosunarleiðum. Handheldir blásarar verða til staðar í húsinu til notkunar fyrir slökkvilið.

Hér er aðeins stiklað á stóru í brunahönnun hússins, sem er, þrátt fyrir stærð um umfang verkefnisins, furðu einföld. Leitast er við að lágmarka nauðsyn á búnaði (t.d. reykblásarar, bruna-og reyklosur ofl.) sem þarfnast viðhalds og áhersla er lögð á að íþyngjandi hindranir (t.d. eldvarnatjöld, eldvarnahurðir ofl.) falli sem best að starfssemi á hverju svæði fyrir sig.

Anna Málfríður Jónsdóttir skrifaði greinina

Deila
Skráðu þig á póstlista
Thank you!
Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.