Fréttir

Ofbeldi er vinnuverndarmál - en oft vanrækt

March 2, 2021
Blog header image

Lítið er fjallað um ofbeldi á vinnustöðum hér á landi, nema þegar áberandi mál koma upp í fjölmiðlum. Birtingamyndir ofbeldis gagnvart starfsmönnum eru margar og geta haft mikil áhrif á þolandann. Þó er það svo að meirihluti vinnustaða hér á landi gera lítið til að koma í veg fyrir að starfsmenn þeirra verði fyrir ofbeldi við störf sín. En það á sér sínar skýringar.


Þar til nýlega var ofbeldi á vinnustöðum meðhöndlað eingöngu sem hegningarlagabrot og þau mál sem komu upp voru tilkynnt lögreglu og starfsmaðurinn þurfti að kæra geranda sjálfur og fylgja málinu eftir upp á eigin spýtur. Forvarnir voru litlar og skipulögð viðbrögð vinnustaða voru oft meira af vilja en getu.


Nálgun á þessi mál breyttist að einhverju leyti með tilkomu reglugerðar 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Í reglugerðinni er atvinnurekanda gert m.a. skylt að láta ofbeldi ekki líðast á vinnustaðnum, gera áætlun um heilsuvernd byggða á áhættumati, bregðast við atvikum og skrá þau.
Í reglunum er þó lítið sem ekkert fjallað um hvernig haga skuli forvörnum gegn ofbeldi enda er það undir atvinnurekandanum að finna út úr því. Staðreyndin er sú að ofbeldi er mjög flókið vandamál og fæstir stjórnendur vita hvernig takast eigi á við það.


Þó svo að aðstæður séu mismunandi eftir eðli vinnustaða, þá má víða finna áhættuþætti vinnustaðaofbeldis og má þar nefna staðir þar sem koma margir viðskiptavinir, þar sem unnið er með fólki í annarlegu ástandi eða þegar unnið er með fjármuni. Einnig störf þar sem starfsmenn eru einir á ferð og hitta skjólstæðinga, viðskiptavini eða aðra, sérstaklega utan hefðbundins vinnutíma.


Einnig má nefna nokkra áhættuþætti er tengjast stjórnun; stefnuleysi og ónóg þjálfun um vitund og fyrstu viðbrögð við ofbeldi, undirmönnun, ófullnægjandi öryggisráðstafanir og síðast en ekki síst viðvarandi vinnustaðarmenning sem umber ofbeldi og þar sem sannfæring ríkir um að tilkynningar breyti engu.


Ofbeldi er í raun ekki frábrugðið öðrum áhættuþáttum í vinnuumhverfinu, s.s. vinnu í hæð, vinnu í lokuðum rýmum, hættuleg efni, vélar, tæki og margir aðrir þættir sem atvinnurekendur eru margir hverjir orðnir geysilega góðir í að verja starfsmenn sína fyrir. En af hverju ekki ofbeldi?


Ofbeldi er flókinn áhættuþáttur, með margar breytur og snertilfleti, verður til við fjölbreyttar aðstæður og hefur mismunandi áhrif á þolanda og samstarfsmenn. Ofbeldi birtist einnig stjórnendum á mismunandi hátt þar sem sumir líta á ofbeldið sem hluta af rekstrinum, aðrir eru úrræðalausir og enn aðrir vita ekki hvar á að hefjast handa.


Líkamlegt ofbeldi á vinnustöðum er áhættuþáttur sem krefst samvinnu allra aðila og er forvarnaráætlun vegna þess að mestu gerð úr þáttum eins og skuldbindingu stjórnenda og virkri þátttöku starfsmanna, úttektum og aðgerðum til áhættumildunar, þjálfun og fræðslu ásamt virkri skráningu, skjölun og símati á árangri.


Forvarnaráætlun um ofbeldi snýst um að móta og innleiða ferla og verklag sem henta fyrir þann vinnustað sem um ræðir, nánar tiltekið ætti slík áætlun að fela í sér skýr markmið um fyrirbyggingu ofbeldis á vinnustaðnum, miðast við stærð hans og eðli og vera aðlögunarhæf fyrir tiltekin atvik og aðstæður. Hana þarf að meta reglulega og aðlaga vegna breytinga sem eiga sér stað í rekstrinum.


Það er mat okkar hjá Lotu að best er að takast á við ofbeldi á vinnustöðum eins og aðra áhættuþætti á vinnustöðum. Aðferðarfræðin styðst við viðurkenndar aðferðir úr öryggisstjórnun þar sem áhersla er lögð á að skapa umhverfi, stjórnun og verklag sem dregur úr tíðni atvika og tryggir fagleg viðbrögð og lærdóm til forvarna ef atvik verða.


Lota býður vinnustöðum upp á ráðgjöf vegna ofbeldis á vinnustöðum sem m.a. felur í sér gerð forvarnaráætlunar, gerð úttektarlista, gerð könnunar á styrkleika öryggismenningar vinnustaðarins með hliðsjón af ofbeldi ásamt úttekt á lagahlýtni m.t.t. ofbeldis o.m.fl.


Að lokum er forvarnaráætlunin og niðurstöður úttekta, könnunar og lagarýni kynntar fyrir stjórnendum og starfsmönnum þar sem spurningum er svarað og framhaldið mótað í samræmi við niðurstöður.


Það er reynsla Lotu að vinnustaður sem innleiðir slíka forvarnaráætlun muni draga verulega úr líkum á að ofbeldi eigi sér stað og/eða að hann dragi úr þeim skaða sem atvik getur valdið. Það er einnig trú okkar að með réttri innleiðingu, geti sumir vinnustaðir komið algerlega í veg fyrir að slík atvik komi upp.


Ofbeldi á vinnustað er ekki náttúrulögmál.


Mars 2021/Eyþór Víðisson Öryggisfræðingur M.Sc.

Verkefnastjóri er Eyþór Víðisson, öryggisfræðingur en hann hefur yfir 30 ára reynslu af forvörnum í tengslum við ofbeldi við ólíkar aðstæður s.s við hverskonar öryggisvörslu, á sjúkrastofnunum, í umönnum, verslun, fjármálafyritækjum og þjónustu hverskonar. Sem öryggisráðgjafi vann Eyþór náið með öllum helstu fjármálafyrirtækjum hér á landi í og eftir efnahagshrunið árið 2008 við stefnumótun, forvarnir og viðbragðsáætlanir vegna ofbeldis, ásamt fræðslu og þjálfun starfsmanna fjármálafyrirtækja og fyrirtækja í svipaðri starfsemi.

Nýleg dæmi úr fjölmiðlum:

Grunnskólakennari sem hlaut áverka af völdum nemanda síns í kennslustofu er nú 75% öryrki eftir árásina. Dæmi eru um að kennarar hafi farið í langt leyfi frá störfum í kjölfar slíkra atvika eða jafnvel horfið frá kennslu. Formaður Félags grunnskólakennara segir að réttur kennara til öryggis á vinnustað sé ekki nægilega vel tryggður (ruv.is, febrúar 2021).


Ung kona hafði betur í dómsmáli gegn sveitarfélagi á vestfjörðum þegar héraðsdómur dæmdi henni um 16,5 milljónir króna í skaðabætur eftir að hún bar varanlegan skaða af árás sem hún varð fyrir við vinnu í þjónustuíbúð fyrir geðfatlaða. Réðst íbúinn á hana með þeim afleiðingum að hún varð fyrir varanlegu líkamstjóni á hálshrygg auk þess að verða fyrir varanlegu andlegu tjóni. (dv.is, febrúar 2021)

Deila
Skráðu þig á póstlista
Thank you!
Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.